Peloton býður mikið úrval rafhjóla frá Bianchi og Yeti og Wilier.
Rafhjól eru frábær ferðamáti innanbæjar til að hjóla í og úr vinnu eða til að sinna hvers konar erindum. Þú þarft ekki að vera í sérstöku formi til að hjóla á rafhjóli þar sem hjólið léttir sjálfkrafa undir með þér þegar á þarf að halda t.d. upp brekkur eða í mótvindi. Þú getur þannig komist til vinnu án þess að svitna eða þurfa endilega að vera með föt til skiptanna. Rafhjól eru líka frábær afþreyingarkostur í ferðalögum t.d. í útilegunni eða til að hafa í sumarbústaðnum.
Við bjóðum bæði rafdrifin götuhjól sem henta best til nota við samgöngur innanbæjar og fjallahjól sem gera þér kleift að yfirgefa malbikið og njóta útiveru á stígum og öðrum merktum hjólaleiðum. Rafdrifin fjallahjól gera þér kleift að upplifa náttúru landsins okkar á nýjan hátt þar sem slóðar og stígar hvort sem er á fjöllum eða við bæjarmörkin verða leikvöllurinn.
Það eru nokkur atrið sem er gott að hafa í huga þegar velja á rafhjól.
Mótor – Eldri gerðir rafhjóla voru gjarnan með mótor staðsettan í fram eða afturgjörð hjólsins. Þessi tegund mótora er nú yfirleitt á útleið og flest hjól í dag eru með mótorinn staðsettan í sveifarhúsi fyrir miðju hjólsins. Mótor í sveifarhúsi er betur varinn t.d. fyrir óhreinindum og tryggir jafnara og stöðugra viðbragð þegar hjólað er. Gjarðamótorar gera auk þess erfiðara um vik að sinna viðhaldi t.d. ef gera þarf við sprungið dekk.
Afl mótors, tog og hámarkshraði – Öll rafhjól sem ekki eru skráningarskyld hér á landi hafa hámarksafl mótors sem nemur 250W og mótorstuðningur hættir þegar 25 km/klst hraða er náð. Hægt er að hjóla hraðar en það fyrir eigin afli meðan fætur duga. Mótorar geta hins vegar verið með mismunandi tog (e. torque) sem er í raun sambærilegt við það hversu fast eða af hve miklum krafti við stígum á sveifar hjólsins. Algengt tog í mótorum í dag er á bilinu 55Nm – 85Nm. Hátt tog í mótor skiptir minna máli ef eingöngu á að nota hjólið innanbæjar eða á tiltölulega góðu vegyfirborði og yfirleitt á jöfnum hraða. Hærra tog getur gagnast betur í fjallendi eða þegar hjóla þarf upp snarpar brattar brekkur. Öll rafhjól eru með takka í stýri sem gera kleift að stilla hversu mikla hjálp mótorinn veitir. Þetta er yfirleitt þannig að hámarksaflið er takmarkað eftir stillingunni upp að 250W í hæstu stillingu.
Rafhlaða og drægni – Stærð og ending rafhlöðu er atriði sem vert er að spá í þegar fest eru kaup á rafhjóli. Stærð rafhlöðu er mæld í wattstundum (Wh). Algengar stærðir eru á milli 400-750 Wh. Yfirleitt er rafhlaðan líka þyngri eftir því sem hún er stærri. Burtséð frá rafhlöðustærð eru önnur atriði sem hafa oftast meiri áhrif á drægni hjólsins, s.s. brekkur, vindur, óslétt vegyfirborð og þyngd hjóls og hjólreiðamanns. Uppgefin drægni hjólsins miðar við bestu aðstæður að þessu leyti því er nauðsynlegt að íhuga við hvaða aðstæður þú ætlar að nota hjólið. Uppgefin drægni rafhjóla er oftast á bilinu, 80-150 km.
Gírar og demparar – Athugaðu að á rafhjólum þarf hjólreiðamaður að nota gíra hjólsins eins og á hefðbundnum hjólum. Skipta þarf í léttari gír í brekkum og þegar átak eykst. Góð notkun á gírum eykur líka drægni hjólsins og endingu rafhlöðu. Flest rafhjól eru með framdempara til að minnka titring og óþægindi í lengri ferðum. Fjallahjól geta auk þess verið með dempara að aftan sem auðveldar hjólreiðar utan vega á fjallaslóðum, kindagötum og í grýttu landslagi. Vert er að skoða hvort gírbúnaður og demparar eru af viðurkenndri tegund.
Bremsur – Rafhjól eru oftast milli 25-35 kg að þyngd og fara oft hraðar en hefðbundin hjól. Það er því mjög mikilvægt að hafa góðar bremsur og við mælum með að íhuga eingöngu kaup á hjólum með vökvadrifnum diskabremsum. Eldri og ódýrari rafhjól hafa sést í verslunum með gjarðabremsum sem við mælum ekki með.
Hjálmar og hlífar – Þar sem rafhjól fara oft hraðar en þegar hjólað er á hefðbundnu hjóli er algerlega nauðsynlegt að hafa góðan hjálm. Ef rafdrifin fjallahjól eru notuð utan vega mælum við eindregið með að nota bakbrynju og hné- / olnbogahlífar. Ef hraði er mikill í grýttu eða ósléttu landslagi þá er hjálmur með andlitskjálka nauðsynlegur. Athugið að mikill munur er á hjálmum sem ætlaðir eru til fjallahjólreiða og götuhjólahjálmum. Fjallahjólahjálmar eru með mun meiri vörn á hnakka og í hliðum. Hjálma ætti að endurnýja á 3-5 ára fresti og strax ef um slys eða óhapp er að ræða eða ef skemmdir eru sjáanlegar.
Viðhald og umhirða – Nauðsynlegt er að halda hjólinu hreinu, passa upp á loft í dekkjum og að smyrja það reglulega. Komdu í heimsókn og við sýnum þér hvernig þetta er gert. Síðan ættir þú að fara með hjólið í skoðun og yfirferð á verkstæði á a.m.k. 6 mánaða fresti ef hjólið er notað allt árið en að lágmarki á 12 mánaða fresti annars. Fjallahjól sem notuð eru mikið utan vega og í drullu, bleytu og ryki þurfa meira viðhald.
Þú getur séð hjólin í vefversluninni okkar og við erum með hjólin samsett í versluninni og hvetjum þig til að koma við og fá að prófa. Við bjóðum sveigjanleg greiðslukjör í gegnum samstarfsaðila okkar. Einnig bjóða margir vinnustaðir samgöngustyrki fyrir umhverfisvæna ferðamáta sem nota má til að fjárfesta í rafhjóli.
Hafðu samband við okkur til að panta eða ef þú hefur spurningar eða vilt vita meira. Þú ert velkomin/n til okkar í verslunina ef þú ert með spurningar eða ef við getum aðstoðað þig við að komast af stað í þessu frábæra sporti.